Innlent

Bæjaryfirvöld á Akureyri sökuð um klíkuskap

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Plastáss á Akureyri sakar bæjaryfirvöld þar um hringlandahátt og klíkuskap í útboðsmálum bæjarins. Bæjaryfirvöld vísa slíku á bug.

Í sumar auglýstu Fasteignir Akureyrarbæjar eftir 1000 fermetra húsnæði fyrir starfsemi Plastiðjuna Bjarg en þar starfa einstaklingar með skerta starfsgetu. Fyrirtækið Plastás skilaði inn gögnum ásamt fleirum og fóru samningaumleitanir fram um að fyrirtækið byggði nýtt húsnæði á Óseyri og myndi leigja bænum þar hluta húsnæðisins til tíu ára. Lögð var áhersla á að húsnæðið yrði að vera glænýtt.

Undirbúningur þessa verkefnis var langt kominn og átti að afhenda húsnæðið í október næsta ár þegar bærinn stytti afhendingartímann til 15. maí næsta vor og bað um nýja verkáætlun. Plastás lét gera nýjar teikningar og lagði út í mikinn kostnað, að sögn framkvæmdastjóra. En þegar næsti fundur fór fram kom enn fram ný krafa um að afhendingartíminn yrði styttur til 15. mars. Með því var fyrirtækinu ýtt út af borðinu að sögn framkvæmdastjóra Plastáss.

 

Á meðan þessu fór fram hafði annar einstaklingur gert tilboð í gamalt húsnæði við Furuvelli 1 og boðið bænum leigusamning. Bærinn skoðaði húsnæðið og leist ekki á, sagði það ekki henta. Þá bauð annað fyrirtæki í Furuvelli, Höldur, sem leigir bænum nú húsnæði Plastiðjunnar Bjargs á Gleráreyrum í sama hús að Furuvöllum, og ákvað bærinn þá að ganga til samninga við Höld og leigja út Furuvelli 1 fyrir starfsemina. Höldur hafði aldrei verið inni í samningaferlinu til þessa og spyr framkvæmdastjóri Plastáss hvort hugast geti að pólitísk tengsl hafi þarna getað skipt máli.

 

Hjá Fasteignum Akureyrarbæjar sagði Guðríður Friðriksdóttir að vegna sérstakra skipulagsaðstæðna hefði þurft að hraða afhendingu og væri miður að það hefði valdið útboðsaðilum vandræðum. Ásökunum um pólitískar ákvarðarnir væri hins vegar vísað á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×