Innlent

Bílslysum fækkar hlutfallslega í Reykjavík

Jón Örn Guðbjartsson skrifar

Umferðaróhöppum og umferðarslysum hefur fækkað um 45 prósent í höfuðborginni frá árinu 2000 ef hliðsjón er höfð af fjölgun ökutækja. Tveir hafa látist í umferðinni í ár en á sama tíma í fyrra höfðu 7 látist í umferðarslysum.

Lögregla telur að vegabætur eigi stóran þátt í snarbættri umferðarmenningu auk þess sem hert sektarúrræði skili árangri þegar fram í sækir.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, telur að víravegrið á Hellisheiði, sem vélhjólamenn hafa kvartað yfir, hafi sannað tilverurétt sinn. Tvöföldun Reykjanesbrautar hafi auk þess dregið verulega úr slysum.

Í höfuðborginni hefur slysum fækkað mikið hlutfallslega á sex ára tímabili. Bifreiðum hefur fjölgað mikið í borginni en tjónum fækkað.

Óhöpp eða slys með meiðslum árið 2000 voru 494 miðað við 100 þúsund ökutæki.

Árið 2006 voru slysin hins vegar 277 miðað við sama fjölda ökutækja.

Kristján Ólafur Guðnason segir að þrátt fyrir að margur gæti ætlað að slysum sé að fjölga mikið, þá fækki þeim hlutfallslega miðað við fjölda ökutækja.

Sektarúrræði hafa verið hert mikið að undanförnu og telur lögreglan að ökumenn muni hægja verulega á sér á næstunni því sektirnar séu það háar að ökumenn finni rækilega fyrir þeim.

Hærri sektir auki þannig öryggi í umferðinni og dragi enn frekar úr slysum.

Áhrifa hærri sekta er þó ekki tekið að gæta enn því á sjálfvirkum mælum vegagerðarinnar kemur fram að stór hluti ökumanna ekur of hratt og hraðast fara menn um Mývatnsöræfi. Þar ekur verulegur hluti ökuamanna á meira en 120 km. hraða á klukkustund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×