Innlent

Lamaðist eftir fyllerí

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Haukur Örn Birgisson, lögmaður Reykjavíkurborgar, segir dóminn eðlilegan.
Haukur Örn Birgisson, lögmaður Reykjavíkurborgar, segir dóminn eðlilegan. Mynd/ Visir.is
Héraðsdómur sýknaði fyrir helgi Átt-kaup ehf, eigendur húsnæðisins að Laugarvegi 22, og Reykjavíkurborg vegna slyss sem átti sér stað þegar ungur maður féll niður stiga á skemmtistaðnum 22 með þeim afleiðingum að hann lamaðist. Maðurinn krafðist skaðabóta að fjárhæð ríflegra 30 milljóna króna á þeim forsendum að umbúnaður stigans sem hann féll í hafi verið óforsvaranlegur og mætti rekja slysið til hans.

Eiganda hússins var stefnt vegna ábyrgðar á ástandi og umbúnaði stigans. Reykjavíkurborg var stefnt í málinu þar sem rekstraraðilinn, Plena ehf., hafði öll tilskilin leyfi frá Reykjavíkurborg til veitingarekstrar þegar slysið varð.

Dómarinn taldi að stefnandi hefði ekki leitt sönnur að því að slysið og tjónið sem af því hlaust yrði rakið til þess að stigi veitingahússins eða umbúnaður væri óforsvaranlegur heldur yrði slysið alfarið rakið til óhappatilviks og ölvunar stefnanda sjálfs. Því bæri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

Haukur Örn Birgisson, lögmaður Reykjavíkurborgar, segist vera ánægður með dóminn fyrir hönd borgarinnar. Dómurinn sé í samræmi við þá dómaframkvæmd sem ríkt hafi hér á landi í undanfarna áratugi. Áður hafi fallið dómar er varði bótaábyrgð opinberra eftirlitsaðila vegna skaðaverka sem hljótast af völdum meints vanbúnaðar í fasteignum. Sakarmat slíkra aðila sé almennt mjög vægt þannig að mikið þurfi að koma til svo að bótaábyrgð verði felld á opinbera eftirlitsaðila.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×