Innlent

Krefjast tvöföldunar á Suðurlandsvegi sem allra fyrst

MYND/PB

Samtök sunnlenskra sveitarfélaga kallar eftir því í yfirlýsingu að tvöföldun Suðurlandsvegar hefjist sem allra fyrst. Samtökin benda á umferðarteppuna sem myndaðist um síðustu helgi máli sínu til stuðnings og benda á að umferð við Litlu Kaffistofuna hafi aukist um rúmlega fimmtíu prósent á síðustu fimm árum.

Ef sama þróun heldur áfram segja samtökin að gera megi ráð fyrir því að árið 2017 fari 22 þúsund bílar framhjá Litlu Kaffistofunni að meðaltali á sólarhring. „Landsmenn kynntust því um síðustu helgi hve umferð hefur vaxið gríðarlega og að sama skapi hvað vegirnir eru vanbúnir til að anna slíkri umferð," segir meðal annars í yfirlýsingunni. „Þannig fóru um 17 þúsund bílar um Suðurlandsveg síðasta sunnudag og svipaður fjöldi á föstudeginum áður og umferðin gekk vægast sagt hægt fyrir sig."

Í yfirlýsingunni segja samtökin að í ljósi mikillar umferðaraukningar um veginn á síðustu árum að ekki komi annað til greina en að hefja sem allra fyrst tvöföldun Suðurlandsvegar með nýrri brú yfir Ölfusá. „Sú framkvæmd mun duga til næstu áratuga en bygging 2+1 vegar væri hins vegar dýr bráðabirgðalausn þegar upp er staðið," segir í yfirlýsingunni.

Hana má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×