Innlent

Barist í Drangey

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Barist var í Drangey í gær í fyrsta sinn í síðan Grettir Ásmundarson var þar veginn árið 1031 en þá lögðu á fimmta tug víkinga undir sig eyjuna.

Um var að ræða þátttakendur á Víkingahátíð í Skagafirði. Lagt var í hann frá Reykjum á Reykjaströnd með Jóni Eiríkssyni, Drangeyjarjarli, á hádegi í gær. Víkingarnir koma víða að en einn þeirra er sænski leikarinn Jerker Falströn en hann segir komuna til Drangeyjar einstaka.

Grettir Ásmundarson þáði ráð móður sinnar og hélt til Drangeyjar árið 1028 til að verjast þar og dvaldi hann þar síðustu ár ævi sinnar. Jerker segir Grettissögu eina af sínum uppháhalds Íslendingasögum og telur hann að Drangey hafi verið góður staður fyrir Gretti til að verjast andstæðingum sínum.

Víkingarnir tóku hraustlega á því í eynni í gær og börðust í blíðaskaparveðri. Þess á milli var sungið og hlustað á flautuleik. Jerker er einn fjölmargra sem leggur leið sína hingað til lands þetta árið til að taka þátt í Víkingahátíðum. Hann segir áhuga sinn á víkingum og hetjudáðum þeirra hafa kviknað snemma.

Víkingahátíðinni á Sauðárkrók lýkur á morgun en hún er haldin í samvinnu við víkingahátíðina í Hafnarfirði sem hófst um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×