Innlent

Ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála

Tveggja vikna sumarþingi Alþingis lauk nú síðdegis með samþykkt frumvarpa um afnám tekjutengingar á atvinnutekjum aldraðra og um sameiningu ráðuneyta. Stjórnarandstaðan segir þingstörfin hafa leitt í ljós að landsmenn búa við ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Átakamálin milli stjórnarflokkanna bíði óleyst í röðum.Forystumenn stjórnarandstöðunnar fengu það upplýst við upphaf þingfundar í morgun að stjórnarflokkarnir hefði ekki samið sín á milli um hin umdeildu vatnalög.

Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformaður Frjálslynda flokksins, sagði þetta sýna að landsmenn búi við ríkisstjórn hins ófullgerða stjórnarsáttmála. Hann tiltók sjö mál sem stjórnarflokkarnir væru ósammála um; það væru launahækkun seðlabankastjóra, vatnalögin, hvalveiðar, friðun Þjórsárvera, framtíð Íbúðalánasjóðs og Ríkisútvarpið ohf. Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, kvaðst vorkenna forsætisráðherra og hvatti hann til að fara með utanríkisráðherra sem fyrst aftur á Þingvöll til að ganga frá málum. Samfylkingarþingmenn væru hver og einn með handsprengjur í vösum sem þeir hentu hiklaust á ráðherra Sjálfstæðisflokksins.

Lokaatkvæðagreiðslur sumarþingsins fóru svo fram nú síðdegis. Þar voru meðal annars samþykkt lög sem afnema tekjutengingu ellilífeyris við atvinnutekjur 70 ára og eldri og lög um sameiningu ráðuneyta og tilfærslu verkefna þeirra á milli. Einnig lög um að álverið í Straumsvík verði skattlagt samkvæmt almennum skattalögum en ekki sérlögum. Forsætisráðherra las að lokum upp forsetabréf um frestun þingfunda.

Alþingismenn eru þar með farnir heim í þriggja og hálfsmánaðar langt sumarfrí. Þeir koma næst saman til þingfundar þann 1. október í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×