Innlent

Góð þátttaka í veðurleik Stöðvar 2 og Vísis

Vel á annað þúsund manns hafa skráð sig til leiks í veðurleik Stöðvar 2 og Vísis. Leikurinn hófst um síðustu mánaðamót og lýkur í lok ágústmánaðar.

Leikurinn gengur út það að fólk skráir á hverjum degi veðurfar í sínu sveitarfélagi. Vikulega eða oftar er virkasta sveitarfélagsins getið í veðurfréttum og hvar veðursældin hefur verið mest. Í lok sumars fá ötulustu veðurathugunarmennirnir svo verðlaun.

Sigurður Ragnarsson, veðurfræðingur og umsjónarmaður leiksins, sagði í samtali við Vísi þátttakendur hafa verið mjög duglega við að skrá veðurfar. Hann segir þó að sumir kvarti undan því að miðað sé við sveitarfélög í leiknum en ekki minni svæði. „Sumir sem búa til dæmis í Árbænum vilja að það sé sérstakt svæði og tilheyri ekki Reykjavík. Þeir telja væntanlega að veður þar sé betra en á öðrum stöðum í höfuðborginni."

Þá segir Sigurður að útilokað sé að svindla í leiknum til að mynda með því að setja inn grunsamlega hátt hitastig. Sérstök sía í forritinu komi í veg fyrir það og þannig sé tryggt að leikurinn snúist ekki um það hver ýki mest.

Taka má þátt í veðurleiknum hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×