Lífið

Guðrún setur hótel Hellnar á sölu

Guðrúnu langar að vera nær börnunum og barnabörnunum.
Guðrúnu langar að vera nær börnunum og barnabörnunum. MYND/GVA

„Ég er búin að reka hótelið ein í þrjú ár og það tekur á. Það getur verið svolítið einangrandi og ég er þannig gerð að mér finnst skemmtilegra að starfa í félagi með einhverjum,“ segir Guðrún Bergmann, eigandi hótel Hellnar í Snæfellsbæ, en hún hefur sett hótelið á sölu og hyggst snúa sér að öðrum verkefnum.

Hótel Hellnar hefur notið sívaxandi vinsælda á meðal erlendra ferðamanna og hefur Guðrún unnið mikið og gott starf við uppbyggingu hótelsins síðustu ár. „Reksturinn gengur mjög vel og það hefur verið aukning á hverju einasta ári. Þetta ár er það langbesta hingað til, gestir eru mjög ánægðir og hótelið er greinlega búið að skapa sér nafn,“ segir Guðrún, en hótelið hefur verið rekið í því rekstrarformi sem það er í nú frá árinu 2000. 20 herbergi eru á hótelinu og segir Guðrún að hver sá sem taki við af henni taki við góðu búi. “Landið er mjög gott og það er mikið af uppbyggingarmöguleikum. En ég get ekki hugsað mér að leggjast í slíkar framkvæmdir ein.

Aðspurð segist Guðrún ekki búin að ákveða hvað hún taki sér næst fyrir hendur. „Ég hef nokkrar hugmyndir. Ég hef hug á því að vinna að umhverfismálum og það yrði gaman að byrja að skrifa bækur aftur. Svo hef ég hug á að því að flytjast nær börnunum og barnabörnunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.