Innlent

Síminn og Landsvirkjun fallast á háa fjársekt fyrir ólögmætt samráð

Síminn og Landsvirkjun hafa viðurkennt að hafa haft með sér ólögmætt samráð vegna kaupa Símans á fjarskiptafyrirtæki og ljósleiðarastrengjum af Landsvirkjun og fallist á að greiða samtals áttatíu milljóna króna sekt í ríkissjóð. Þetta er hæsta sekt sem samið hefur verið um hérlendis vegna brota á samkeppnislögum.

Síminn féllst á að greiða 55 milljóna króna sekt og Landsvirkjun 25 milljóna króna sekt. Þetta er þriðja hæst sekt í sögu samkeppnisbrota hérlendis en sú hæsta sem fyrirtæki hafa samið um, að sögn Guðmundar Sigurðssonar, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins. Samkvæmt fréttatilkynningu þess hófu samkeppnisyfirvöld að eigin frumkvæði rannsókn eftir að greint var frá því að Síminn hefði fyrir þremur árum keypt fjórðungshlut í Fjarska ehf., dótturfélagi Landsvirkjunar, ásamt því að kaupa sex af tólf ljósleiðarastrengjum milli Hrauneyjafossvirkjunar og Akureyrar. Gögn málsins sýna að forsenda Símans fyrir samstarfi og verkaskiptingu á sviði fjarskipta við dótturfélag Landsvirkjunar hafi verið sú að Fjarski ásamt Landsvirkjun drægju sig út af almennum fjarskiptamarkaði og kæmu ekki til með að keppa við Símann á þeim markaði. Samkeppniseftirlitið segir einnig ljóst að með ofangreindum samningum hafi fyrirtækin skipt með sér heildaflutningsgetu ljósleiðarans milli Hrauneyjarfossvirkjunar og Akureyrar. Þá geti samningarnir veitt Símanum aðgang að viðkvæmum viðskiptalegum upplýsingum frá Fjarska. Eru samningarnir því samkeppnishamlandi og fela í sér ólögmæta markaðsskiptingu, að því er fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×