Innlent

Samkeppniseftirlitið sektar Sund

Samkeppniseftirlitið hefur sektað félagið Sund um eina milljón króna vegna þess að fyrirtækið svaraði ekki ítrekaðri beiðni stofnunarinnar um gögn. Eftirlitið sendi Sundum bréf þann 15. maí þar sem óskað var eftir gögnum í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Glitni sem mikið hafði verið fjallað um í fjölmiðlum.

Sund svöruðu Samkeppniseftirlitinu á þá leið að Sund Holding, sem er dótturfélag Sunda, hefði selt hlut sinn í Glitni banka og því teldi félagið sér því óskylt að svara bréfi Samkeppniseftirlitsins. Jafnframt kom fram að hlutur Sunda Holding hefði verið seldur þar sem Fjármáleftirlitið hafði svipt félagið atkvæðarétti á hluthafafundi Glitnis banka.

Samkeppniseftirlitið ítrekaði gagnabeiðni sína þann 18. júlí og svar barst frá Sundum viku síðar. Með hliðsjón af 37. grein samkeppnislaga taldi eftirlitið að Sund hefðu gerst brotleg með því að afhenda ekki gögnin.

„Synjun Sunda á því að svara upphaflegri gagnabeiðni Samkeppniseftirlitsins byggði ekki á neinum málefnalegum ástæðum og eðlilegum forsendum. Þá var dráttur félagsins við að svara bréfum Samkeppniseftirlitsins eftir að aukinn frestur hafði verið gefinn algerlega ástæðulaus," segir í úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem sektaði Sund um eina milljón króna sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×