Íslenski boltinn

Höskuldur meiddur á þremur stöðum í einu

Víkingurinn Höskuldur Eiríksson hefur ekkert getað leikið með norska úrvalsdeildarliðinu Viking frá Stafangri en þangað fór hann á láni frá Víking, Reykjavík, í vetur.

„Ég hef einfaldlega átt í meiriháttar veseni með meiðsli, alveg síðan ég kom út,“ sagði Höskuldur við Fréttablaðið í gær en hann er staddur hér á landi þar sem norska úrvalsdeildin er í sumarfríi. „Ég hef verið meiddur á nára í tvo og hálfan mánuð, aftan í hné í þrjá mánuði og á ökkla í einn og hálfan mánuð. Ég er að reyna að nýta tímann hér heima til að fara í meðferð og ná mér góðum.“

Hann segist að hann hafi reynt að koma sér að hjá bæklunarskurðlækni til að fá ráðgjöf en bíði enn eftir því að fá tíma. „Þetta er búið að vera erfitt en ég hef verið að skríða saman og spila með varaliðinu. Það hefur gengið þokkalega en ég finn að ég er alltaf byrjaður að haltra í seinni hálfleik.“

Hann segir þetta vissulega vera vonbrigði. „Ég vissi vel að þetta gæti gerst enda eru meiðsli alltaf hluti af fótboltanum. Það er auðvitað vonandi að ég nái að koma mér í gott form þarna úti og sýni hvað í mér býr. Ég get ekki neitað því að ég sé farinn að örvænta eftir því að ná mér heilum því mér finnst ég búinn að vera svona í langan tíma án þess að batna neitt.“

Framtíðin er því í óvissu því útlit er fyrir að hann komi heim að tímabilinu loknu ákveði Viking í Stafangri ekki að kaupa hann þá. „Þetta verður bara að koma í ljós. Ég hef nú ekki enn getað sýnt þeim neitt til að gefa þeim tilefni til að kaupa mig en það er samt langlíklegast að ég klári tímabilið úti. Vonandi næ ég einhverjum mánuðum þar sem ég verð heill.“

Að lokum sagðist hann ekki útiloka neitt, það gæti vel verið að fjölskylda hans ákveði síðar í sumar að koma heim, fyrr en áætlað var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×