Innlent

Ókeypis sprautunálar fyrir fíkla?

Vera Einarsdóttir skrifar
MYND/Vísir

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir í samtali við Vísi.is að skoða þurfi ítarlega þann kost að fíklar geti nálgast ókeypis sprautunálar. Hann segir það sérstaklega mikilvægt í ljósi aukinna lifrarbólgu C smita hér á landi.

Þessu hefur verið velt upp til að koma í veg fyrir útbreiðslu á blóðsmitandi sjúkdómum. Víða erlendis bjóða apótek ókeypis sprautunálar og í New York eru til svokölluð "shooting galleries" þar sem fíklar skila notuðum sprautum og fá nýjar í staðin. Haraldur segir þó ýmsar siðferðilegar spurningar vakna og ekki séu allir sammála um ágæti þess að sprautur séu gefins. Verið sé að aðstoða fíkla við neysluna á meðan hún er í raun bönnuð. Þó verður að horfast í augu við að neyslan er staðreynd og að koma þurfi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Haraldur segir þó ekki ljóst hvernig hægt sé að útfæra þetta hér á landi.

Haraldur segir að apótekin á Íslandi hafi jákvætt viðhorf til þess að afgreiða sprautur og sprautunálar. Auk þess sé lágt verð á þessum vörum. Hann segir að sérfræðingar og stjórnvöld þurfi að fara yfir málið og skoða til hlítar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×