Innlent

Bandaríkjamenn styðja ekki þjóðir til framboðs í öryggisráð

MYND/Stöð 2

Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir það stefnu Bandaríkjanna að lýsa ekki stuðningi við nokkurt ríki til setu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Þetta kom fram á blaðamannafundi eftir fund Burns með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra í Ráðherrabústaðnum í Tjarnargötu í dag.

Eins og kunnugt er sækjast Íslendingar eftir setu í öryggisráðinu en Burns vildi ekki lýsa yfir stuðningi við framboðið þar sem Bandaríkjamenn gerðu ekki slíkt.

Fram kom að Ingibjörg Sólrún og Geir hefðu rætt við Burns um alþjóðamál á breiðum grundvelli, þar á meðal loftslagsbreytingar, Íraksstríðið og málefni Írans. Sagði Burns að margar og mismunandi þjóðir væru innan Atlantshafsbandalagsins sem hefðu mismunandi skoðanir á stöðunni í Írak. Mikilvægt væri þó að horfa fram á veginn og stuðla að uppbyggingu í Írak.

Burns var einnig spurður út í yfirlýsingar sínar í erlendum miðlum um að Íranar sæju talibönum í Afganistan fyrir vopnum. Sagði hann að Bandaríkjamenn hefðu sannanir fyrir því að vopnin sem um ræddi væru upprunnin í Íran.

Eftir fundinn heimsótti Burns Alþingishúsið en þar tók Sturla Böðvarsson, foresti Alþingis, á móti honum og sýndi honum húsakynnin. Burns ritaði svo nafn sitt í gestabók Alþingis.

Nicholas Burns fer svo af landi brott í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×