Innlent

Tvö torfæruslys á sólarhring

Ungur maður lærbrotnaði þegar hann ók torfæruhjóli sínu á kyrrstæðan bíl í íbúðahverfi á Akranesi í gærkvöldi. Þetta er annað slysið af þessu tagi á einum sólarhring.

Hann var fyrst fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi og eftir aðhlynningu þar áfram á slysadeild Landsspítalans þar sem hann gekkst undir aðgerð. Að sögn lögreglu má hann teljast heppinn að hafa ekki slasast meira.

Hjólið var óskráð og ótryggt enda aðeins ætlað til aksturs á þar til gerðum brautum en ekki á götum eða vegum. Þá fótbrotnaði maður þegar hann féll á vespu í Hljómskálagarðinum í Reykjavík í gærkvöldi en þar má ekki aka vélhjólum.

15 ára piltur, sem hlaut opið lærbrot þegar hann ók torfæruhjóli sínu á ljósastaur í Hveragerði í fyrrakvöld, á langa legu fram undan en hann brotnaði líka á úlnlið.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst eru lögregluembættin á Suðvesturlandi að íhuga sérstak átak gegn akstri þessara hjóla og í því sambandi verður kannað hvaða sektum yrði beitt í fælingaskyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×