Lífið

Óvænt uppákoma í brúðkaupi Sóleyjar

Sóley og nýbökuðum eiginmanni hennar, Frey, var komið á óvart í vígslunni þegar vinahópurinn stóð upp og söng fyrir þau.
Sóley og nýbökuðum eiginmanni hennar, Frey, var komið á óvart í vígslunni þegar vinahópurinn stóð upp og söng fyrir þau.

Sóley Kristjánsdóttir, betur þekkt sem DJ Sóley, og unnusti hennar Freyr Frostason gengu í það heilaga um helgina. Í athöfninni sjálfri var brúðhjónunum komið á óvart, þegar vinahópur parsins stóð upp og söng. „Þetta var alveg æðislegt.

Ég táraðist alveg, mér brá svo,“ sagði Sóley, sem var á leiðinni í sprautu hjá lækni vegna yfirvofandi brúðkaupsferðar til stranda Indlandshafs þegar Fréttablaðið náði tali af henni.

Magnús Jónsson, þekktur sem Maggi Jóns og oft á tíðum kenndur við Gus Gus, er vinur brúðhjónanna. Hann söng fyrir hjónakornin lag sem hann samdi fyrir Silfurtóna á sínum tíma. „Það var ekki óvænt, það var alltaf planið að hann myndi syngja. Hann breytti bara textanum svo hann passaði betur við okkur,“ útskýrði Sóley. „En svo stóðu þrjátíu manns upp og sungu bakraddir með honum. Strákarnir öðru megin og stelpurnar hinum megin. Það var ótrúlega flott,“ sagði hún.

Sóley segir uppátækið hafa slegið þau dálítið út af laginu, en kveðst þó mæla með óvæntum uppákomum af þessu tagi. „Athöfnin endaði á þessu og allir komust í brjálað stuð fyrir veisluna,“ sagði hún. „Þetta var alveg geðveikt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.