Lífið

Bjarni Ben ætlar að hlaupa maraþon

Bjarni ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmara-þoninu og hlaupa alla fjörutíu og tvo kílómetrana.
Bjarni ætlar að taka þátt í Reykjavíkurmara-þoninu og hlaupa alla fjörutíu og tvo kílómetrana.

„Við erum nokkrir saman sem höfum verið að hlaupa síðan í janúar,“ segir alþingismaðurinn Bjarni Benediktsson sem ætlar að hlaupa heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoninu ásamt nokkrum félögum sínum. „Það hefur gengið misjafnlega að koma sér virkilega vel í gang og ýmis meiðsl hafa verið að hrjá hópinn og ég sjálfur þurfti að taka mér smá pásu en er allur að koma til,“ bætir Bjarni við.

Reykjavíkurmaraþonið er haldið í ágúst en hlaupið sjálft er rúmir fjörutíu kílómetrar. Þetta þykir mikil þolraun og menn þurfa að vera í æði góðu formi til að komast á leiðarenda. „Maður fer þetta á skapinu en ég ætla mér ekki að slá nein tímamet heldur bara komast í markið,“ segir Bjarni. „Og ég vonast auðvitað til að komast meiðslalaus í gegnum undirbúningstímabilið.“

Bjarni segir að margir í hópnum séu fyrrverandi handbolta-og knattspyrnukempur og því sé stutt í keppnisskapið. „Annars er þetta bara fín heilsurækt, fara út að hlaupa með félögunum og ræða um leið um daginn og veginn,“ segir Bjarni sem tekur þó skýrt fram að þeir félagar hlaupi ekki maraþon í hvert skipti sem þeir reima á sig hlaupaskóna. „Nei, þetta eru svona tíu til fimmtán kílómetrar hverju sinni og vonandi hleypur maður bara maraþon einu sinni,“ útskýrir Bjarni sem var ekki í nokkrum vafa um að þetta ætti eftir að nýtast honum á fleiri stöðum heldur en á hlaupabrautinni. „Þetta verður fínt fyrir golfið í sumar enda aldrei gott að vera móður og másandi yfir boltanum áður en maður slær,“ segir Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.