Lífið

Örvhenti urriðinn reyndist lax

Þegar þessi mynd var tekin stóð Siggi í þeirri meiningu að hann héldi á stærsta urriða sem hann hefði veitt.
Þegar þessi mynd var tekin stóð Siggi í þeirri meiningu að hann héldi á stærsta urriða sem hann hefði veitt.

„Hvað er lax að flækjast í Minnivallalæk í Landsveit? Mér fannst hann reyndar laxlegur. Urrrlax,“ segir Sigurður Sveinsson, handboltakappi með meiru.

Fréttablaðið greindi skilmerkilega frá því að Sigurður hefði sett í býsna stóran fisk í Minnivallalæk, sem er frægur urriðaveiðistaður. Fimmtán punda bolta. En þegar menn til þess bærir fóru að rýna í myndina sem birtist af Sigga hróðugum með risaurriðann sinn, sem hann reyndar hélt fram að væri örvhentur, sáu menn að þarna var kominn lax en ekki urriði.

„Já, veiðigeirinn segir að þetta sé vel alinn niðurgöngulax eða hoplax. Vel í holdum. Þegar ég fór að rýna betur í myndina kom þetta í ljós. Ég vissi bara ekki að það væri lax í Minnivallalæk. Hvað þá urrlax,“ segir Siggi spurður hvernig það megi vera að svona reyndur veiðimaður og hann hafi ruglað saman laxi og urriða.

„Já, já, menn eru að hlæja að mér. Ég líka. Eins gott að hann fór ekki á platta þessi. En yfirleitt er lax orðinn bjartur á vorin en þessi var dökkur. Mjög urriðalegur. En ég er niðurbrotinn maður,“ segir Siggi.

Og enn stendur það þá að stærsti urriðinn sem handboltakappinn snjalli hefur dregið er níu pund en ekki fimmtán og sá silungur var veiddur í Þingvallavatni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.