Innlent

Milljón á mann hjá Samvinnutryggingum

Yfir þrjátíu þúsund fyrrverandi tryggingatakar hjá Samvinnutryggingum eiga í sameiningu yfir 30 miljarða króna í sjóðum félagsins, án þess að hafa hugmynd um það. Þeir geta nú brátt innleyst þessa eign.

Eignarhaldsfélaginu Samvinnutryggingum verður væntanlega slitið á aðalfundi félagsins í dag samkvæmt tillögu þar um, og nýtt hlutafélag stofnað í staðinn. Að sögn Benedikts Sigurðssonar,umsjónarmanns eða forstjóra Eignarhaldsfélagsins, verður þá eignarhlutur hvers og eins umreiknaður til hlutafjár í nýja félaginu sem þessir óvæntu fjármagnseigendur geta þá ýmist átt áfram í því félagi eða selt á frjálsum markaði.

Samkvæmt samþykktum Eignarhaldsfélagsins eru eigendur fjármunanna annars vegar þeir sem voru með einhverjar tryggingar hjá Samvinnutryggingum g.t. árin 1987 og 1988 og hins vegar þeir sem voru með lögboðna brunatryggingu húsa árin 1992 og 1993.

Benedikt segir að fjöldi eigenda og eignir félagisns komi í ljós þegar skiptanefnd fái málefni félagsins til meðferðar eftir að því hefur verið slitið.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi voru fjármunir sjóðsins meðal annars notaðir til kaupa S-hópsins á Búnaðarbankanum og þriðjungshlut í Icelandair nýverið. Eigendur fjárins, sem ekki vissu að þeir ættu það, fengu aldrei yfirlit um reksturinn né greiddan arð af fénu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×