Lífið

Klerkur kannast ekki við klámbræður

Gísli Ásgeirsson. Þýðandinn og faðir hans hafa komist að ættartengslum Bólu-Hjálmars og klámbræðranna Scott og Grant Hjorleifsona.
Gísli Ásgeirsson. Þýðandinn og faðir hans hafa komist að ættartengslum Bólu-Hjálmars og klámbræðranna Scott og Grant Hjorleifsona.

Þýðandinn Gísli Ásgeirsson og karl faðir hans hafa grafið upp ansi merkileg ættartengsl bræðranna og Vestur-Íslendinganna Scott og Grant Hjorleifson en nafn þeirra hefur borið á góma í tengslum við klámráðstefnuna sem halda á hér um miðjan mars. Bræðurnir eru nefnilega komnir af skáldinu fræga, Bólu-Hjálmari, sem þýðir að sr. Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur er meðal ættmenna þeirra.

„Þetta var nú aðallega pabbi sem grúskaði í þessu,“ útskýrir Gísli og vill meina að séra Hjálmar eigi fátt sameiginlegt með þessum fjarskyldu frændum sínum – Hjálmar sé drengur góður, mikill íslenskumaður og gott skáld. „Ef Scott og Grant hafa einhvern tímann ort eitthvað þá er það bara klám. Og það er kannski ósanngjarnt að bendla Hjálmar við þessa menn en hann er bara frægasta skyldmennið í ættinni,“ segir Gísli. Gísli bendir jafnframt á að gaman sé að velta fyrir sér merkingu orðsins klám í íslenskri tungu. Klám sé eitthvað sem er bæði hrjúft, gróft og erfitt en til gamans má geta að vinsæl þrekraun fyrir göngufólk á hinni víðfrægu gönguleið, Laugaveginum, heitir einmitt Klámbrekka.

Sr. Hjálmar kom af fjöllum þegar Fréttablaðið bar þessi ættartengsl undir hann. „Ég á ættingja í Vesturheimi eins og flestir en kann engin deili á þessum mönnum,“ segir Hjálmar sem kvaðst hafa lítinn sem engan áhuga á umræðu um klámið og ráðstefnuna. „Ég kann ekki við þegar menn þykjast ekkert vera að velta sér upp úr klámi en eru samt sem áður að því.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.