Íslenski boltinn

Gylfi dæmir síðasta leikinn í dag

Lokaflautið - Gylfi Orrason dæmir sinn síðasta leik á Íslandsmótinu í Breiðholtinu í kvöld
Lokaflautið - Gylfi Orrason dæmir sinn síðasta leik á Íslandsmótinu í Breiðholtinu í kvöld Mynd/GVA

Gylfi Orrason hefur dæmt á Íslandsmótinu í knattspyrnu í aldarfjórðung en í kvöld flautar hann sinn síðasta leik á Íslandsmótinu þegar hann dæmir leik Leiknis og Víkings Ó í 1. deildinni.

Vísir náði tali af Gylfa í dag og spurði hann hvernig það legðist í hann að dæma sinn síðasta leik. "Þetta er nú bara ósköp venjulegur leikur í 1. deildinni og það var nú ekki meiningin að þetta yrði eitthvað merkilegt," sagði Gylfi hógvær. Hann er búinn að dæma á Íslandsmótinu í 25 ár.

"Ég byrjaði að dæma í úrvalsdeildinni 1989 en hef verið að dæma í deildunum síðan 1983. Ég hef nú verið latur við að skrá þetta hjá mér og ég verð nú að segja að ég man ekki einu sinni hvaða leik ég dæmdi fyrst. Þetta rennur allt saman í eitt hjá mér," sagði Gylfi léttur í bragði.

Hann bað félaga sinn Pjetur Sigurðsson sérstaklega um að vera á línunni í kveðjuleiknum sínum í kvöld, en þeir félagar dæmdu mikið saman á erlendri grundu. Pétur er sjálfur nýhættur en sló til þegar kallið kom.

"Maður er búinn að vera að trappa sig niður í rólegheitunum undanfarin ár og ég reikna nú ekki með því að hætta alveg þó ég sé hættur á Íslandsmótinu. Maður flautar kannski eitthvað í yngriflokkunum hjá Fram og svo verður maður kannski að leiðbeina eitthvað hjá KSÍ," sagði Gylfi.

Hann horfir sáttur fyir dómaraferilinn. "Það er búið að vera rosalega gaman að ferðast í kring um starfið og koma því til landa sem maður hefði annars aldrei komið til. Stundum hefur líka mikið gengið á í þessu og aldrei nein lognmolla," sagði Gylfi og bætti því við að sennilega hefðu bikarúrslitaleikirnir tveir sem hann dæmdi verið eftirminnilegastir hér heima.

En er dómarastarfið vanþakklátt starf. "Mér finnst skilningur, aðstandenda, þjálfara og leikmanna vera að aukast á því að dómarastarfið er ekki eins auðvelt og menn halda. Það er ekki sama heiftin í þessu og var hérna einu sinni. Menn eru að gera sér grein fyrir því að dómarar gera mistök í hverjum einasta leik rétt eins og leikmennirnir," sagði Gylfi.

Honum þykir staðan á dómgæslu í dag vera í ágætum málum. "Það eru miklar framfarir í gangi í dómgæslunni og utanumhaldið hjá KSÍ er orðið betra. Það er verið að gera meira fyrir dómara til að undirbúa þá og það eru margir ungir og efnilegir dómarar á leiðinni upp."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×