Innlent

Heimilin neydd til að taka dýr yfirdráttarlán

Hærri afborganir af húsnæðislánum og almennar verðhækkanir hafa neytt heimilin til að taka dýr yfirdráttarlán. Ríkissjóður og bankarnir hafa tekið til sín mest af góðæri undanfarinna ára, að mati lektors í hagfræði.

Við sögðum frá því í fréttum okkar í gær, að yfirdráttarskuldir íslenskra heimila hafi aldrei verið hærri, þrátt fyrir hátt vaxtastig um þessar mundir. Heildar yfirdráttarlán heimilanna eru 75,6 milljarðar en af þeim greiða þau um 1,3 milljarða í vexti á mánuði. Vextir á yfirdráttarlánum geta verið allt að 25 prósent, sem fyrir tæpum tveimur áratugum voru kallaðir okurvextir á Íslandi.

Guðmundur Ólafsson lektor í hagfræði segir að vaxtaokrið á Íslandi hafi verið að aukast. Vaxtaokrið sé meira hér en í flestum öðrum löndum. Íslendingar ættu sennilega heimsmet í vaxtaokri.

Guðmundur segir að þeir tveir aðilar sem tekið hafi til sín obban af góðærinu á undanförnum árum séu ríkissjóður annars vegar og bankarnir hins vegar.

"Ríkissjóður hefur aukið sinn hlut í heildarþjóðarekjum úr 35 % í 45% svona gróft talið," segir Guðmundur. Ríkið hafi því aukið sínar álögur. Þetta hafi hins vegar ekki bitnað þungt á almenningi vegna þess hvað góðærið hafi veri mikið. En þetta þýði að góðærið hafi að mestu farið til ríkisins og svo til bankanna.

Ofan á hátt vaxtastig segir Guðmundur að bankarnir innheimti ólögleg gjöld af viðskiptavinum sínum. Þetta segir Guðmundur að sé ólöglegt samkvæmt íslenskum lögum.

Þarna vísar Guðmundur í lög um neytendakaup, en þar segir "Seljandi getur ekki til viðbótar kaupverðinu krafist þóknunar fyrir að gefa út og senda reikning.

"Ég kalla þetta bara ósvífni og því skyldu vestirnir því ekki vera komnir til með sama hætti, vegna ósvífni, bæði af hálfu stjórnvalda sem keyra hér upp okurvaxtastefnu í Seðlabankanum og svo auðvitað seðilgjaldaó´svífni," segir Guðmundur Ólafsson lektor í hagfræði við Háskóla Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×