Erlent

Kosningafundir á Vesturbakkanum og Gasaströndinni

Stuðningsmenn Hamas.
Stuðningsmenn Hamas. MYND/AP

Mörg þúsund Palestínumenn tóku þátt í kosningafundum sem Fatah-samtök Mahmouds Abbas, forseta Palestínumanna, Hamas-samtökin og samtökin Heilagt stríð boðuðu til á Vesturbakkanum og Gasaströndinni í kvöld. Nú er aðeins rúmur einn og hálfur sólahringur þar til Palestínumenn ganga að kjörborðinu og kjósa sér þing.

Nýjustu kannanir benda til þess að Hamas-samtökin vinni fylgi af Fatah í kosningunum og er þeim spáð 31% atkvæða. Frambjóðendur Hamas hafa lagt áherslu á að þeir vilji uppræta þá spillingu sem hafi þrifist undir stjórn Fatah. Sérfræðingar segja þó margt benda til þess að Fatah vinni á nú á síðustu metrunum þar sem óákveðnir kjósendur hallist frekar að þeim en Hamas.

Bandaríkjamenn hafa ekki lagt hart að Abbas, forseta Palestínumanna, að banna Hamas-samtökunum að taka þátt í kosningunum. Bandarísk stjórnvöld flokka Hamas sem hryðjuverkasamtök og því ætla þau ekki að semja við þá Hamas-liða sem taki sæti í stjórn Palestínumanna. Abbas vonast til þess að Hamas taki þátt í stjórnmálaferlinu af heilum hug.

Liðsmenn Heilags stríðs hvöttu Palestínumenn í dag til að sniðganga kosningarnar en ekki er talið að það hafi nokkur áhrif á kjörsókn enda búist við 85% þátttöku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×