Innlent

Brúin yfir Jöklu farin

Brúin sem er verið að búta sundur er rétt fyrir ofan Kárahnjúkastífluna.
Brúin sem er verið að búta sundur er rétt fyrir ofan Kárahnjúkastífluna. MYND/Vilhelm Gunnarsson

Nú er unnið að því að rífa brúna yfir Jöklu sem stendur niðri í fyrirhuguðu lónsstæði Hálslóns, fyrir ofan Kárahnjúkastíflu. Að sögn Sigurðar Arnaldssonar, talsmanns Landsvirkjunar á Kárahnjúkum, er brúin það síðasta af mannvirkjum og búnaði verktakanna sem er fjarlægt af lónsstæðinu. Áætlað er að loka fyrir rennsli Jöklu og byrja að fylla Hálslón upp úr miðri næstu viku.

Næsta brú yfir Jöklu er við Brú á Jökuldal auk þess sem hægt er að komast á jeppum af Kárahnjúkavegi niður í Hrafnkelsdal. Sigurður segir Landsvirkjun stefna á að opna sem fyrst næsta sumar fullbúinn veg yfir stíflurnar sem tengi Vesturöræfin og Fljótsdalsheiðina. Hann segir brúna yfir Jöklu vera búna að gegna sínu hlutverki og því sé hún fjarlægð áður en vatni sé hleypt á lónið. Einnig sé búið að fjarlægja steypustöðvar, grjótmulningsstöðvar og fleira í þeim dúr sem hafi verið niðri í lónsstæðinu. Eftir standi því aðeins vegir, grjótnámur og jarðrask annað sem fari undir vatn, sem og 57 ferkílómetrar af landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×