Lífið

X-Faktor tekur við af Idolinu í vetur

X-Faktor tekur við af Idol á dagskrá Stöðvar 2 í vetur. Fólki á öllum aldri er heimil þátttaka og sönghópar eru boðnir velkomnir. Einar Bárðar og Páll Óskar verða í dómnefnd ásamt Ellý í Q4U.

„Fyrstu áheyrnarprufur verða í ágúst og september og við skorum á alla, einstaklinga og hópa, á hvaða aldri sem er til að mæta og taka þátt," segir Heimir Jónasson dagskrárstjóri Stöðvar 2. Þær breytingar verða á dagskrá stöðvarinnar næsta vetur að Idolið fer í frí en í staðinn kemur nýr söng- og skemmtiþáttur, X-Faktor. Maðurinn á bakvið X-Faktor er Idoldómarinn alræmdi, Simon Cowell. Þættirnir hafa verið sýndir tvo síðustu vetur í Bretlandi við miklar vinsældir. Þriggja manna dómnefnd verður í X-Faktor. Hún er skipuð þeim Einari Bárðarsyni og Páli Óskari Hjálmtýssyni sem báðir eru kunnir fyrir störf sín í Idolinu.

Þriðji meðlimur dómnefndarinnar er svo pönkdrottningin Elínborg Halldórsdóttir, betur þekkt sem Ellý í Q4U. Henni mun ætlað að feta í fótspor Sharon Osbourne sem vakið hefur mikla eftirtekt í breska X-Faktor. Þegar Fréttablaðið ræddi við Ellý í gær var hún ekki alveg viss um þessa samlíkingu: „Mig vantar alla vega Ozzie, ég á engan kall," sagði Ellý og hló. Hún hefur síðustu árin starfað mikið við tónlistarkennslu á Akranesi þar sem hún er búsett. Ellý er alls ekki smeyk við að hefja störf í sjónvarpi. „Nei, mér finnst það ekkert skrítið, mér finnst það eiginlega ekkert mál." Kynnir í X-Faktor verður leikkonan Halla Vilhjálmsdóttir.

Sá grundvallarmunur er á Idolinu og X-Faktor að aldurinn skiptir engu máli í síðarnefndu þáttunum. Allir hafa jafnan rétt til þátttöku og sönghópar eru jafn velkomnir og einstaklingar. Auk þess gefst þátttakendum líka tækifæri til að sýna færni sína á hljóðfæri og að koma eigin lagasmíðum á framfæri.

„Það sem mér finnst einna mest spennandi við X-Faktor er barátta dómaranna," segir Heimir Jónasson. „Í byrjun vinna þau saman að því að velja fólk og skipta því í hópa. Svo verður þeim úthlutað hópum og þau fara að berjast með sínu fólki um það hver vinnur. Þetta er í sjálfu sér kjarninn í X-Faktor, að þau eru líka eins og umboðsmenn fyrir sitt fólk."

Sýningar á X-Faktor hefjast í nóvember en fram að því verður strangur undirbúningur hjá Stöð 2. Áheyrnarprufur hefjast seinna í mánuðinum og verða þær væntanlega vel auglýstar þegar þar að kemur.

Heimasíða X-faktor í Bretlandi





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.