Innlent

Ekki ástæða til að rannsaka fangaflug

Utanríkisráðherra segir ástæðulaust að ætla að landhelgi Íslands hafi verið notuð til að fremja mannréttindabrot. Þetta segir hann þrátt fyrir að Amnesty International telji að Keflavíkurflugvöllur hafi verið notaður í tengslum við leynilegt fangaflug CIA.

Amnesty International fullyrðir í nýútkominni skýrslu að bandaríska leyniþjónustan CIA hafi kerfisbundið notfært sér leppfyrirtæki, sem ekkert er á bakvið, til að halda leynd yfir fangaflugi.

Flugvélar skráðar hjá þessum fyrirtækjum hafi verið flogið leynilega með fanga meira en þúsund sinnum og ein þeirra lent í Keflavík. Í fréttum okkar í gær sagðist formaður Íslandsdeildar Amensty harma að íslensk stjórnvöld taki ásökunum á hendur bandarísku leyniþjónustunni sem slúðri.

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar spurði utanríkisráðherra á Alþingi í dag hvort ástæða væri til rannsóknar.

Geir Haarde benti á að slík rannsókn væri á verksviði dómsmálaráherra, en miðað við þær upplýsingar sem fram hefðu komið væri engin ástæða til slíks. Í skýrslu Amnesty International væri á einum stað vikið að Íslandi og þess getið að ein flugvél, sem notuð hefði verið í þessum tilgangi, hefði í eitt skipti millilent í Keflavíki. Ekkert væri fullyrt um að það hefði verið ólöglegt athæfi. Ráðherra notaði tækifærðið og ítrekaði að íslensk stjónvöld fordæmdu mannréttindabrot hvar sem þau fara fram. Ekki væri ástæða til að ætla að landhelgi Íslands hefði verið notuð til að fremja mannréttindabrot.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×