Innlent

Allir álfar velkomnir á Stokkseyri

Allir landsins draugar hafa þegar fengið athvarf í gömlu frystihúsi á Stokkseyri og nú um áramótin verða álfar boðnir velkomnir þangað líka. Þór Vigfússon og Bjarni Harðarson kveða þar gamla vísu að fornum sið til að bjóða álfum til nýrra heimkynna.

Álfa-, trölla- og norðurljósasafnið er í þúsund fermetra rými á fyrstu hæð gamla frystihússins Hólmarastar en þar er búið að búa ýmsum vættum íverustað, þar sem náttúrulegu umhverfi þeirra er ógnað, að sögn Þórs Vigfússonar. Hann segir klappir og kletta hafa verið sprengda og grafna í sundur til að rýma fyrir húsgrunnum, jarðgöngum og fleiri mannanna verkum og álfar og huldufólk séu því víða á hrakhólum.

Safnið er nú opið fyrir álfa og tröllin eru væntanleg á þorranum, en fólki verður ekki boðið í heimsókn fyrr en þessar vættir eru búnar að búa um sig, einhvern tíma á útmánuðum.

Auk þjóðsagnapersóna eiga listamenn, tónminjasafn og jafnvel orgelsmiður hæli í Hólmaröst. Þar að auki eru á Stokkseyri veiðisafn, töfragarður og ýmis önnur dægradvöl.

Vísan sem kveðin verður í kvöld á Stokkseyri, en siður er að hafa yfir á gamlárskvöld, er á þessa leið: "Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, veri þeir sem vera vilja, mér og mínum að meinalausu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×