Innlent

Fjármálaráðherra opnar sundlaug

Útisundlaugin  á Heilsustofnun NLFÍ
Útisundlaugin á Heilsustofnun NLFÍ MYND/sudurland.is

Á laugardaginn vígði Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra, í fjarveru heilbrigðisráðherra, nýja 25 metra útisundlaug, ásamt sérhönnuðum nuddpottum á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði.

Bryndís Guðnadóttir, markaðsstjóri HNLFÍ segir að sund- og baðaðstaðan verði ein sú stærsta og fullkomnasta sem fyrirfinnst hjá fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum hér á landi. Útilaugin er óvenjuleg fyrir þær sakir, að hún dýpkar á þverveginn, en það er m.a. gert til þess, að hægt sé að synda í sömu dýpt yfir alla laugina. Hin nýja aðstaða markar endalok á fjögurra ára byggingarferli við baðhús stofnunarinnar, sem var gefið nafnið Kjarnalundur við athöfnina á laugardaginn.

Framkvæmdir hófust á árinu 2002 og haustið 2003 var innilaugin, sem er sérhönnuð endurhæfingarlaug, tekin í notkun ásamt góðri aðstöðu fyrir leirmeðferðir. Ný herbergjaálma var svo tekin í notkun vorið 2004 og alls hafa því á síðastliðnum árum bæst 2000 fermetrar við húsakynni HNLFÍ. Auk fjármálaráðherra voru meðal annarra viðstaddir vígsluna Dr. István Fluck, yfirlæknir Gellert sjúkrahússins í Budapest, sem verið hefur NLFÍ til ráðgjafar við uppbygginguna og Joachim Lieber, framkvæmdastjóri ESPA; heilsulindarsamtaka Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×