Innlent

Meintur læknadópsali sýknaður

Héraðsdómur Reykjaness hefur sýknað mann af ákæru fyrir brot gegn lyfjalögum, en maðurinn var afhjúpaður af fréttaskýringaþættinum Kompási fyrir ólöglega sölu á svokölluðu læknadópi. Í þætti Kompáss sem sýndur var seint á síðasta ári voru tvær tálbeitur notaðar til þess að kaupa lyf hjá ákærða en þátturinn fjallaði um hversu auðvelt er að nálgast læknadóp á Íslandi.

Fyrir 14 þúsund krónur fengu þau 10 Ritalin töflur, þrjár Rivotril, þrjár Contalgin og fimm töflur af valíum.

Fréttastjóri Kompáss Jóhannes Kr. Kristjánsson afhenti lögreglu síðan lyfin og skýrði tilgang þáttarins.

Eftir að lögregla framkvæmdi húsleit hjá manninum þar sem hún haldlagði ýmis lyf, var hinn meinti læknadópsali ákærður. Við yfirheyrslur sagðist maðurinn þekkja tálbeiturnar vel, þær hefðu komið á hans fund í þeim tilgangi að gera heimildarmynd um aðra tálbeituna sem á sér langa fíkniefnasögu. Ákærði hafi átt að leika læknadópsala í myndinni og hann hafi fengið töflurnar fyrir upptökuna svo málið liti raunverulegar út.

Tálbeiturnar tvær staðfestu framburð ritstjóra Kompáss fyrir dómi en breyttu síðan framburði sínum eftir réttarhlé og samsinntu ákærða, að einungis hafi verið um sviðsetningu að ræða.

Fyrir dómi héldu aðilar sama vitnisburði. Eftir stutt réttarhlé fyrir málflutning, óskuðu vitnin síðan eftir að breyta framburði sínum og gáfu nýja skýrslu þar sem þau samsinntu framburði ákærða að öllu leyti, málið hafi verið sviðsett vegna heimildarmyndar sem þau þrjú unnu að. Á þessu byggir dómurinn niðurstöðu sína og sýknar ákærða, auk þess að dæma að sakarkostnaður hans skuli greiddur úr ríkissjóði.

Fréttastjóri Kompáss var ekki kallaður til sem vitni í málinu.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×