Framherjinn Peter Crouch hjá Liverpool segist fagna því að vera búinn að endurheimta félaga sinn Wayne Rooney inn í enska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Makedóníu og Króatíu á næstu dögum og vonast til að fá tækifæri til að leika við hlið hans.
Rooney hefur verið í leikbanni í síðustu leikjum en snýr nú aftur inn í hópinn og reiknað er með því að hann fái fljótt tækifæri til að spila við hlið hins hávaxna og markheppna Crouch, sem hefur skorað hvorki meira né minna en 11 mörk í aðeins 14 landsleikjum. Þar af hefur hann skorað 5 mörk í 3 leikjum undir stjórn Steve McClaren.
"Það er frábært að fá Rooney aftur inn í hópinn, því hann er litríkur persónuleiki auk þess að vera frábær leikmaður. Menn benda á að hann hafi lítið verið að skora undanfarið, en ég veit að það er aðeins tímaspursmál hvenær hann fer að raða þeim inn á ný. Ég held að við Rooney gætum reynst skæðir sem framherjapar, þar sem ég myndi spila á toppnum og hann allt í kring um mig," sagði Crouch.