Erlent

FBI skoðar Foley

Mark Foley

Bandaríska alríkislögreglan hefur til skoðunar klúr bréfaskrif bandarísks þingmanns til lærlinga á skrifstofu hans. Hann hefur þegar sagt af sér embætti. Maðurinn sem um ræðir heitir Mark Foley en hann sat í fulltrúadeildinni fyrir Repúblikanaflokkinn.

Í síðustu viku varð uppvíst að hann hefði um nokkurt skeið klæmst við unglingspilta sem unnu sem lærlingar í þinginu með tölvupóstum og sms-skeytum. Málið er litið sérstaklega alvarlegum augum þar sem Foley situr í nefnd sem fjallar meðal annars um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum. Hann sagði af sér embætti á föstudaginn og baðst við það tækifæri afsökunar á athæfinu.

Alríkislögreglan hefur þegar hafið rannsókn á hvort hann hafi brotið lög, svo og siðanefnd þingsins. Vísbendingar eru um að fjöldi þingmanna hafi vitað um framferði Foley í langan tíma en ekkert aðhafst. Málið kemur á versta tíma fyrir Repúblikanaflokkinn því aðeins eru nokkrar vikur til þingkosninga í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×