Innlent

Gengið til styrktar hugmyndum Ómars

Boðað hefur verið til fjöldagöngu í kvöld klukkan átta í Reykjavík, Ísafirði og á Akureyri. Gangan í Reykjavík leggur af stað frá Hlemmi og endar á Austurvelli en gengið er til stuðnings hugmyndum Ómars Ragnarssonar um að fresta fyllingu Hálslóns.

Hugmyndir Ómars ganga út á að Kárahnjúkavirkjun verði geymd sem minnismerki, vatni verði ekki hleypt á og orkuöflun fyrir álverið í Reyðarfirði fari fram á háhitasvæðum á Norðausturlandi eða jafnvel austan Snæfells. Með því verði Jöklu og Hjalladal þyrmt. Ómar var í óðaönn að undirbúa erindi sitt sem hann flytur í kvöld þegar fréttastofu NFS bar að garði. Hann var spurður hvaða máli það skiptir að ganga til varnar Kringilsárrana nokkrum dögum áður en vatni verður hleypt á Hálslón. Hann svarar því til að gangan breyti ekki þeim gjörningi sem fylling Hálslón sé en kosningavetur framundan gefi þessum hugmyndum byr undir báða vængi. Ómar grípur til líkingamáls úr hnefleikum þegar hann segir að þótt náttúrusinnar liggi í gólfinu eftir rothögg þá séu enn nokkrar lotur eftir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×