Innlent

Stutt síðan Samfylkingin beitti sér fyrir nýrri stóriðjuuppbyggingu

Aðeins eru þrír mánuðir liðnir frá því að Samfylkingin beitti sér fyrir því innan Reykjavíkurborgar að Orkuveitan kæmi að frekari stóriðjuuppbyggingu innan tveggja ára. Í síðustu viku boðaði sami flokkur stóriðjustopp. Frambjóðendur flokksins í væntanlegum álversbyggðarlögum freista þess nú að útskýra hvernig barátta fyrir nýjum álverum samræmist hinni nýju stóriðjustefnu flokksins.

Það var með stuðningi fulltrúa Samfylkingarinnar sem fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur og Alcan rituðu undir samkomulag í júnílok um orkukaup vegna stækkunar álversins í Straumsvík. Fulltrúi Samfylkingarinnar studdi einnig ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar í marsmánuði, þótt hann sæti hjá í júnímánuði, um að ganga til viðræðna um orkusölu til álvers í Helguvík. Bæði verkefnin miða við að orkusala hefjist árið 2010, sem þýðir að framkvæmdir yrðu að hefjast innan tveggja ára.

Það liggur því fyrir að Samfylkingin innan R-listans beitti sér fyrr á þessu ári fyrir frekari stóriðjuuppbyggingu, bæði í Straumsvík og Helugvík, en þessar ákvarðanir hafa leitt til þess að undirbúningur er kominn á fulla ferð við bæði verkefnin.

Á blaðamannafundi Samfylkingarinnar í síðustu viku hvað svo við annan tón en þar var boðað að frekari stóriðjuframkvæmdum skyldi frestað, og formaður flokksins sagði að skuldbindingar gagnvart Kyoto leyfðu aðeins eitt álver til viðbótar hérlendis.

Þingmaður flokksins af Suðurnesjum vill þó ekki hætta við álver í Helguvík. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, segir að þegar skynsamlegt verði talið að ráðast í frekari stóriðjuframkvæmdir þá eigi Helugvík að vera inni í myndinni, eins og aðrir staðir.

Samfylkingarmenn á Norðausturlandi ætla ekki að gefa eftir álver við Húsavík, eins og Björn Þorláksson, fréttamaður á Akureyri, komst að. Oddviti flokksins á Akureyri, Hermann Jón Tómasson, formaður bæjarráðs Akureyrar, telur að Samfylkingin eigi að ganga lengra og lýsa því yfir að ef pláss sé fyrir eitt álver til viðbótar þá eigi sú stóriðja að rísa á Norðurlandi. Byggðasjónarmið eigi að ráða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×