Erlent

Var reið og dreymdi um að sleppa

Austurríska stúlkan Natascha Kampusch segist hafa verið mjög reið þau átta ár sem mannræninginn Wolfgang Priklopil lokaði hana niðri í gluggalausum kjallara í nágrenni Vínar og segist hafa hugsað stanslaust um flótta en verið hrædd um eigið líf og annarra ef hún flýði. Mannræninginn hafði hótað henni að hann myndi myrða hana, nágrannana og að lokum sjálfan sig ef hún reyndi að sleppa.

Hún segist hafa reynt að stökkva út úr bíl hans þegar þau voru í bæjarferð en að hann hafi gripið í hana, haldið henni fastri og brennt af stað. Einnig segist hún hafa reynt að senda þegjandi neyðarkall með augunum til þeirra sem hún mætti þegar þau fóru í búð í bænum.

Natascha kom fram í 40 mínútna löngu sjónvarpsviðtali í gærkvöld í fyrsta skipti frá því hún stakk af úr prísundinni þann 23. ágúst og lýsti þar líðan sinni meðan hún var í haldi Wolfgangs sem og tilfinningunum eftir að hún slapp. Natascha hafði sjálf valið hvaða spurningum hún myndi svara og neitaði hún að tala um of persónuleg málefni.

Fyrst eftir að henni var rænt þegar hún var á leið heim úr skólanum þegar hún var 10 ára segist hún hafa grýtt vatnsflöskum í veggina og að hún hefði sturlast ef Wolfgang hefði ekki stöku sinnum hleypt henni upp úr kjallaranum upp í hús sitt.

Hún sagðist harma að mannræninginn hafi framið sjálfsmorð vegna þess að hún hefði viljað krefja hann skýringa en neitaði að tjá sig neitt meira um samband sitt við mannræningjann. Natascha hafði sjálf valið hvaða spurningum hún myndi svara og neitaði hún að tala um of persónuleg málefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×