Sport

Boxar fyrir smáaura upp í skuldir

Mike Tyson segist hafa það fínt þessa dagana þó hann sé blankur
Mike Tyson segist hafa það fínt þessa dagana þó hann sé blankur NordicPhotos/GettyImages

Fyrrum heimsmeistarinn í þungavigt, járnkarlinn Mike Tyson, er um þessar mundir að vinna hjá einu af spilavítunum í Las Vegas. Þar boxar Tyson við gesti og gangandi sem vilja fá að bera goðsögnina augum, en hann er nú að reyna sitt besta til að greiða skuldir sínar við skattayfirvöld í Bandaríkjunum.

Tyson, sem er fertugur, fullyrðir að hann sé hættur að stunda alvöru hnefaleika en hann er stórskuldugur eftir ólifnað sinn í gegn um tíðina. Talið er að Tyson hafi unnið sér inn yfir 300 milljónir dollara í verðlaunafé á ferlinum einu sinni svo mikið sem 30 milljónir dollara fyrir einn bardaga, en hann sóaði peningum sínum illa á sínum tíma og fékk góða hjálp frá illa innrættu fólki sem umkringdi hann eins og hrægammar þegar vel gekk.

"Ég hata að boxa og ætla aldrei að berjast alvöru bardaga aftur," sagði Tyson í viðtali við ESPN sjónvarpsstöðina. "Mér líður samt ágætlega þó ég sé ekki ríkur og í dag er ég í raun að upplifa það sem mig langaði alltaf áður - að vera bara eins og hver annar meðaljón," sagði Tyson, sem á sínum tíma var uppnefndur "Versti skúrkurinn á jörðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×