Erlent

Illa gengur að manna friðargæslulið í Líbanon

Illa gengur að manna friðargæslulið í Líbanon, sem vonast er til að taki til starfa eftir tvær vikur. Ísraelar segjast ekki geta hugsað sér að samþykkja að ríki sem ekki viðurkenni Ísrael taki þátt í friðargæslunni.

Enn er verið að færa fórnarlömb mánaðarlangra átaka Ísraels og hizbollah til grafar í suðurhluta Líbanons. Á meðan íbúar jarða ættingja og vini, þá gengur illa að manna fimmtán þúsund manna friðargæslulið.

Gert var ráð fyrir að 3.500 friðargæsluliðar yrðu komnir á staðinn eftir tvær vikur, en þær þjóðir sem helst vilja senda fólk til Líbanons eru múslimaríki sem fæst viðurkenna Ísraels. Þannig eru Malasía og Indónesía reiðubúin að senda friðargæsluliða á staðinn, en þau viðurkenna ekki Ísrael - og sendiherra Ísraels hjá Sameinuðu þjóðunum sagði í gærkvöldi að þátttaka þeirra væri því óhugsandi.

Háttsettir embættismenn hjá Sameinuðu þjóðunum segja að vopnahléð sé í hættu takist ekki að koma friðargæslunni af stað á tilsettum tíma. Frakkar, sem ætluðu að leiða liðið og leggja til verulegan mannskap, hafa nú tilkynnt að þeir muni einungis senda tvö hundruð manns. Það þykir mönnum snautlegt og Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst yfir vonbrigðum með þá ákvörðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×