Luis Aragones fékk það óþvegið í fjölmiðlum í heimalandinu í gærkvöldi eftir að hans menn þurftu að sætta sig við markalaust jafntefli gegn íslenska landsliðinu í æfingaleik þjóðanna á Laugardalsvelli. Fyrirsagnir spænsku blaðanna sögðu sína sögu um álit þarlendra á úrslitunum.
Aragones lofaði að segja af sér ef spænska liðið yrði ekki í einu af fjórum efstu sætunum á HM í sumar, en snerist hugur og hefur nú endurnýjað samning sinn við spænska knattspyrnusambandið og ætlar að halda ótrauður áfram.
"Landsliðsþjálfarinn neitar að viðurkenna að honum mistókst ætlunarverkið á HM og neitar að viðurkenna að tíminn er að renna út. Hvað hefur hann svo sem gert til að verðskulda framlengdan samning?" sagði í spænska blaðinu Marca í dag.
Blaðið AS var heldur ekki sátt við Aragones og bauð upp á fyrirsögnina "Farsi á Íslandi," á meðan Marca sagði "Kjánalegasti leikur sumarsins."
Aragones var ekki sáttur við spilamennsku sinna manna í gær og sagði þetta hafa verið versta leik liðsins undir sinni stjórn síðan hann tók við fyrir tveimur árum. "Mínir menn voru þreyttir og þungir og ekki í nægilega góðu formi til að spila leikinn. Íslenska liðið spilaði mjög fast og það kom mér á óvart hvað það var gróft. Það var greinilegt að þeir lögðu mikla áherslu á að ná hagstæðum úrslitum. Mér finnst samt mjög skrítið að spila svona fast í vináttuleik," sagði Aragones.