Erlent

Vilja senda friðargæslulið til Líbanons

Kofi Annan og Tony Blair mæta til fundar í St. Pétursborg.
Kofi Annan og Tony Blair mæta til fundar í St. Pétursborg. MYND/AP
Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, hafa lagt til að Sameinuðu þjóðirnar sendi friðargæslulið til Líbanons til að stöðva árásir Hezbollah á ísraelsk skotmörk. Loftárásir Ísraela í Líbanon hafa heimt í það minnsta sautján líf í nótt og í morgun. Telja þeir að ef tekst að binda endi á árásir Hizbollah þá hafi Ísraelar ekki ástæðu lengur til loftárása á Líbanon.

Ísraelar sprengja nú út um allt í Líbanon, þó mest í úthverfum Beirút og suðurhluta Líbanons. Tala látinna í Líbanon er nú komin yfir hundrað og þrjátíu á sjötta degi frá því sprengingar hófust. Þar af hafa að minnsta kosti sautján látið lífið bara í nótt og í morgun. Loftárásum Ísraela er að sögn heryfirvalda aðallega beint gegn skotmörkum Hisbollah, sem og olíutönkum og samgöngumannvirkjum.

Spjótin berast nú enn að Írönum eftir að Ísraelar sögðu að sprengjur sem grönduðu járnbrautarstöð í Norður-Ísrael hefðu verið smíðaðar í Íran. Utanríkisráðherra Írans er nú í opinberri heimsókn í Sýrlandi en írönsk yfirvöld hótuðu í morgun að Ísrael myndi hljóta ólýsanlegan skaða í hefndarskyni ef ráðist yrði á Sýrland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×