Erlent

Stjórnar raftækjum með hugarorkunni

Bandarískum vísindamönnum hefur tekist að græða nema og senditæki í heila lamaðs manns sem gera það að verkum að hann getur hreyft músarbendil á tölvuskjá og stjórnað sjónvarpi og vélmenni með hugarorkunni. Neminn nemur heilabylgjur mannsins og sendir þannig skilaboð sem koma í stað fyrir að fingur ýti á takka.

Vísindamenn vonast til að geta þróað tæknina þannig að hún geti hjálpað sem flestum sem eru hreyfihamlaðir vegna mænuskaða eða taugasjúkdóma á borð við Lou Gehrigs sjúkdóminn.

Matthew Nagle, fyrsti maðurinn sem fær græddan í sig slíkan nema, gat í tilraunum vísindamannanna opnað og skoðað tölvupóst, spilað einfaldan tölvuleik sem kallast Pong, teiknað upp grófan hring í teikniforriti, skipt um stöðvar á sjónvarpi og hækkað og lækkað að vild. Einnig gat hann hreyft við hönd vélmennis og opnað og lokað rafknúinni gervihönd.

Matthew, sem er 26 ára, lamaðist eftir hnífsstunguárás milli herðablaðanna árið 2001. Hann segir að ekki hafi verið erfitt að læra að beita hugarorkunni til að senda skipanir til raftækjanna, hann hafi náð tökum á því á fjórum dögum.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×