Innlent

Jónína Bjartmarz gefur kost á sér sem varaformaður

MYND/STEFÁN

Jónína Bjartmarz, alþingismaður og umhverfisráðherra, hefur ákveðið að gefa kost á sér í kjöri til varaformanns Framsóknarflokksins á komandi flokksþingi í ágúst.

Með framboði sínu sem varaformaður hyggst Jónína beita sér fyrir nýrri sókn framsóknarmanna, aukinni þátttöku og áhrifum kvenna í Framsóknarflokknum og auknum samhug og samvinnu flokksmanna. Telur Jónína að það leiði til sterkari stöðu flokksins og öflugs sigurs Framsóknarflokksins í næstu alþingiskosningum.

Guðni Ágústsson er varaformaður nú en hann hefur ekki gefið upp hvort hann hyggist bjóða sig fram til formanns á móti Jóni Sigurðssyni iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hvort hann hyggist sitja áfram sem varaformaður eða hætta.

Jónína Bjartmarz er fædd í Reykjavík 1952. Hún lauk stúdentsprófi frá KHÍ 1974 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1981. Hún varð héraðsdómslögmaður 1985 og rak frá þeim tíma lögmannsstofu með eiginmanni sínum, Pétri Þór Sigurðssyni, hæstaréttalögmanna þar til hún tók sæti á Alþingi árið 2000. Meðal þeirra starfa sem hún hefur sinnt eru: formaður heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis og varaformaður allsherjar-, utanríkis-, og efnahags- og viðskiptanefnda Alþingis.

Hún varð umhverfisráðherra fyrr á þessu ári.

Í fréttatilkynningu segir að Jónína hafi fengið fjölmargar áskoranir frá framsóknarmönnum um allt land sem vilji sjá hana í nýrri forystusveit flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×