Innlent

Vextir af íbúðalánum hækka

Mánaðarleg afborgun af þriggja herbergja íbúð í Reykjavík var meira en helmingi hærri í maí síðastliðnum en fyrir tæpum tveimur árum. Þar ræður almenn hækkun fasteignaverðs mestu. Vextir á íbúðalánum eru nú lægstir 4,95 prósent. Þegar samkeppni bankanna á fasteignamarkaðnum hófst hins vegar fyrir tæpum tveimur árum voru vextirnir lægstir 4,15 prósent.

Samtök atvinnulífsins birtu á vefsíðu sinni fyrir helgi dæmi um greiðslubyrði við kaup á þriggja herbergja 85 fermetra íbúð í Grafarholti í Reykjavík, annars vegar miðað við að íbúðin hafi verið keypt í maí síðastliðnum, og hins vegar ef fjárfest hefði verið í sams konar íbúð í nóvember 2004.

Algengt verð slíkra íbúða í vor var um tuttugu milljónir króna. Gert er ráð fyrir 80 prósenta jafngreiðsluláni til 40 ára með mánaðarlegum greiðslum. Lánsfjárhæðin í er því 16 milljónir króna. Miðað við núverandi vexti nemur greiðslubyrðin tæpum 77 þúsund krónum.

Hefði íbúðin hins vegar verið keypt fyrir tveimur árum, þegar allir helstu markaðsaðilar voru komnir allt niður í fjögurra komma fimmtán prósenta vexti, má ætla að verð hennar hefði verið tæplega 14 og hálf milljón króna, miðað við vísitölu íbúðaverðs. Mánaðarleg afborgun af 80 prósenta láni hefði þá orðið tæplega 50 þúsund krónur.

Ef vextir hefðu verið 4,95 prósent, eins og nú, en fasteignaverð verið það sama og í nóvember 2004, yrði mánaðarleg greiðslubyrði tæplega 55 þúsund og 600 krónur.

Samtök atvinnulífsins benda einnig á að þar sem aukin greiðslubyrði er aðeins að litlu leyti vegna hækkunar vaxta, en að mestu vegna hærra fasteignaverðs, hækka vaxtabætur lítið og þurfa launin því að mestu að standa undir aukinni greiðslubyrði þeirra sem nú eru að kaupa sér íbúð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×