Innlent

Vilja draga menn til ábyrgðar

Avion fyrirtækið viðurkennir að ekki hafi verið fylgt góðum reikningsskilavenjum við bókfærslu á reikningi dótturfyrirtækis þess upp á milljarð króna síðasta sumar. Í yfirlýsingu frá Avion segir að stjórnendur dótturfyrirtækisins verði dregnir til ábyrgðar.Eins og NFS greindi frá á föstudag snýst málið um viðskipti á milli Excel flugfélagsins, dótturfyrirtækis Avion, og breska fyrirtækisins Alpha Airports sem sér meðal annars um matarþjónstu við flufélög.

Hefur verið látið að því liggja að reikningsfærslum uppá jafnvirði milljarðs króna hafi verið hagrætt þannig að heildarreikningar Avion sýndu betri stöðu en ella þegar félagið fór í hlutafjárútboð undir lok síðasta árs.

Nú hefur Avion sent frá sér yfirlýsingu til að skýra málið. Fram kemur þar að Excel hafi ætlað að rifta samningum við Alpha en þjónustufyrirtækið boðið að ef langtímasamningur yrði gerður fengi Excel fyrirframgreiddan afslátt. Virðist þessi afsláttur - í formi kreditnótu uppá ígildi milljarðs króna - verið tekjufærður í heild sinni á uppgjörsári 2005 sem lauk síðasta haust. Avion viðurkennir nú að þarna hafi ekki verið rétt staðið að málum - góðum reikningsskilavenjum hafi ekki verið fylgt. Réttara hefði verið að tekjufæra þennan afslátt jafnóðum á næstu árum á móti samningsbundnum útgjöldum. Búið er að leiðrétta ársuppgjör ársins 2005 með því að færa tekjurnar niður.

Málið hefur valdið miklum usla hjá Alpha Airports í Bretlandi. Bréf félagsins voru tekin af markaði í vor og æðstu stjórnendur hafa tekið pokann sinn.

Í yfirlýsingu Avion Group í dag er vísað til þeirra stjórnenda hjá Excel sem báru ábyrgð á þessum mistökum og sagt orðrétt: "Viðkomandi stjórnendur verða dregnir til ábyrgðar". - það er ekki nánar skýrt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×