Innlent

Tólf kíló af fíkniefnum fundust í Norrænu

Lögreglu-og tollgæslumenn fundu tólf kíló af amfetamíni falin í bíl, sem kom með ferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar í gærmorgun og er þetta lang mesta magn, sem vitað er til að reynt hafi verið að smygla með skipinu í einu.

Tveir Litháar, sem voru á bílnum voru handteknir og verður krafist gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir þeim í dag. Óskar Bjartmars, yfirlögregluþjónn vill ekki staðfesta að ábending hafi leitt til fundarins, en eftir að efnið fannst naut tollgæsla og lögregla heimamanna, aðstoðar manna frá Ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli og tollgæslunnar i Reykjavík, sem staddir voru eystra vegna skipakomunnar. Gangverð á gramminu af amfetamíni á götunni er um fimm þúsund krónur þannig að ef búið hefur verið að drýgja efnið næmi söluandvirðið um 60 milljónum króna, en af það er ódrýgt, hefði söluandvirðið numið 120 til 150 milljónum króna. Óskar segir að ekki sé búið að rannsaka styrkleika efnisins. Þá vill hann ekki upplýsa að svo stöddu hvort mennirnir hafi áður komið til landsins eða tengjast eitthvað þeim litháum, sem áður hafa verið gripnir við tilraunir til að smygla miklu af fíkniefnum til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×