Innlent

Faxaflóahafnir dæmdar til að greiða starfsmanni rúmlega 5 milljónir í skaðabætur

Engey RE-001 í Reykjavíkurhöfn
Engey RE-001 í Reykjavíkurhöfn MYND/Einar Ólason

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Faxaflóahafnir hf. til að greiða Sigurði Ólafssyni skaðabætur vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir við vinnu sína. Sigurður var þann 20. júlí 2004, sem starfsmaður hjá Skipaþjónustu Reykjavíkurhafnar, að binda olíuskip við Eyjagarð. Landfesti, sver kaðall með nælonkjarna slóst í Sigurð með þeim afleiðingum að hann hlaut höfuðáverka, meiddist í andliti og ökklabrotnaði.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að yfirmaður Sigurðar hefði sýnt mikla óaðgæslu þegar hann sagði Sigðurði að reyna að leysa festina sem var föst í gúmmípúða utan á hafnarbakkanum. Festin var strekkt og þegar hún losnaði slóst hún í Sigurð sem hafði þó fært sig um einn og hálfan metra frá. Sigurði voru dæmdar rúmlega fimm milljónir króna í skaðabætur auk ársvaxta og dráttarvaxta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×