Innlent

Hreyfli veitt undanþága fyrir samræmda gjaldskrá

MYND/Vilhelm

Leigubílastöðin Hreyfill hefur fengið leyfi hjá Samkeppniseftirlitinu til að hafa samræmda gjaldskrá fyrir bíla sína eftir að hámarksökutaxti leigubifreiða verður afnuminn á morgun.

Samkeppniseftirlitið úrskurðaði í febrúar að gjaldskrá leigubíla skyldi gefin frjáls frá og með 1. maí næstkomandi. Taldi eftirlitið meðal annars að með reglugerðabreytingu um að höfuðborgarsvæðið og Reykjanes yrði eitt atvinnu- og gjaldsvæði fyrir leigubíla hefði opnast tækifæri á samkeppni í greininni. Þeirri ákvörðun skaut Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurð Samkeppniseftirlitsins.

Leigubílastöðvarnar Hreyfill og BSR sóttu um undanþágu fyrir samræmt verð fyrir bíla sína til þess að neytendur gætu gengið að tilteknu verði vísu og féllst Samkeppniseftirlitið á það í dag að veita þá undanþágu. BSR hefur hins vegar ekki fengið svar en beiðni þess barst Samkeppniseftirlitinu síðar en beiðni Hreyfils.

Bandalag íslenskra leigubifreiðastjóra hefur lýst sig andvígt breytingunum og telur það óheillaspor fyrir neytendur að fella niður hámarkstaxta. Hefur meðal annars verið bent á að slík ráðstöfun hafi gefist illa í Svíþjóð og Noregi. Þá hefur samgönguráðherra lýst sig andvígan breytingunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×