Innlent

Kjarasamningar eru tryggðir

Ríkisstjórnin hækkar skattleysismörk, barna- og vaxtabætur en dregur úr boðuðum skattalækkunum. ASÍ og SA sömdu auk þessa um hækkun grunnlauna og taxta. Aðilar vinnumarkaðarins skrifuðu undir nýjan kjarasamning núna rétt áðan en hann gildir til ársloka 2007.

Samkomulag Alþýðusambands Íslands og Samtaka Atvinnulífsins gerir ráð fyrir hækkun lágmarkslauna úr 108 þúsundum í 123 þúsund frá 1. júlí og upp í 125.000 frá 1. janúar 2007. Við alla mánaðarlaunataxta skulu bætast 15.000 krónur 1. júlí. Einnig var samið um launaþróunartrygigngu upp á 5,5%. Þannig skal starfsmanni sem hefur starfað hjá sama vinnuveitanda frá júní 2005 tryggð að lágmarki sú launahækkun frá fyrsta júlí næstkomandi.

Framlag ríkisstjórnarinnar er hækkun skattleysismarka, en persónuafsláttur hækkar úr 29.029 krónum í 32.150. Ákvæði laga um barnabætur verða endurskoðuð þannig að teknar verði upp greiðslur barnabóta til 18 ára aldurs í stað 16. Atvinnuleysisbætur verða auk þess hækkaðar um 15.000 krónur.

Markmið þessara aðgerða er að ná verðbólgu niður. Með þessu er vonast til að í lok árs 2007 verði verðbólga komin niður í 2,5% eins og er viðmiðið við gerð kjarasamninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×