Innlent

Skerðing kvóta ekki lausnin heldur strangara eftirlit

Framkvæmdastjóri Landsambands íslenskra útvegsmanna segir að besta ráðið til að byggja upp þorskstofninn sé ekki að skerða aflaheimildir heldur að hafa meira eftirlit með veiðunum.

Friðrik Jón Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segir vandamálið ekki vera aflaregluna eins og hún er, að leyfilegt sé að veiða 25% af öllum fiski eldri en fjögurra ára, heldur að síðustu ár hafi veiðihlutfallið verið nær 30 prósentum, vegna veiði umfram aflaheimildir. Stjórnvöld þurfi að einbeita sér að því að ná tökum á umframveiðinni, því það breyti öllu ef heildarafli sem kemur á land er 25%, eins og aflareglan gerir ráð fyrir.

Hann segir fyrrverandi sjávarútvegsráðherra ekki hafa tekið nógu hart á ofveiði smábáta og annarri veiði umfram aflaheimildir og að útgerðarmenn fái nú að kenna á afleiðingum þess. Ástæðurnar fyrir umframveiðinni hafa verið umframveiði smábáta fyrr á árum en einnig skekkjur í stofnmati Hafrannsóknarstofnunar frá ári til árs. Ef stofnunin ofmetur stofnstærð eitt árið, reiknast það sem ofveiði á næsta ári þegar leiðréttingin kemur í gegn.

Nú hefur einnig komið í ljós að Færeyingar veiða langt umfram þær aflaheimildir sem þeim er úthlutað í íslenska þorskstofninum, allt að 5000 tonn umfram 1200 tonna kvóta. Þetta þurfa íslensk stjórnvöld að taka fyrir.

11 þúsunda tonna skerðing kvóta fyrir næsta fiskveiðiár hefur í för með sér um tveggja milljarða króna tap fyrir útgerðarmenn að mati Friðriks og ef aflahlutfall verður lækkað niður í 22% þýðir það enn frekari skerðingar.

Friðrik segir sárt að um leið og útgerðarmenn þurfi að þola kvótaskerðingar sé lagður á þá sérstakur skattur í formi auðlindagjalds, þannig að ríkisvaldið hjálpi ekki til í þessum málum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×