Innlent

Vöruskiptahalli ekki meiri í einum mánuði í 17 ár

MYND/GVA

Vöruskiptahallinn við útlönd í síðasta mánuði var 13,4 milljarðar króna og hefur ekki verið meiri í einum mánuði síðastliðin sautján ár. Jöfnuðurinn er 16,7 milljörðum króna lakari á fyrsta ársfjórðungi þess árs en á sama tíma í fyrra. Bílainnflutningur jókst um nærri tvo þriðju á tímabilinu en búast má við að hann dragist saman á næstunni vegna lækkunar á gengi krónunnar.

Hagstofa Íslands sendi í morgun frá sér nýjar tölur um vöruskipti við útlönd. Þar kemur fram að fyrstu þrjá mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 48,8 milljarða króna en inn fyrir um 80 milljarða og nemur vöruskiptahallinn það sem af er ári því um 32 milljörðum. Hann var hins vegar helmingi minni á sama tíma í fyrra miðað við sama gengi, eða um 16 milljarðar.

Ef aðeins er litið til marsmánaðar kemur í ljós að vöruskiptahallinn við útlönd var 13,4 milljarðar sem er það mesta sem mælst hefur í einum mánuði frá því að samanburðarmælingar Hagstofunnar hófust árið 1989. Fyrra met í viðskiptahalla var ágúst í fyrra, þegar vöruskipti voru neikvæð um 12,9 milljarða.

Verðmæti vöruútflutnings fyrstu þrjá mánuði ársins var 2,5 milljörðum meiri en á sama tíma árið 2005. Sjávarafurðir og iðnaðarvörur voru um 86 prósent alls útflutnings á fyrsta ársfjórðungi, og jókst verðmæti útfluttra iðnaðarvara um 12 prósent milli ára, aðallega vegna aukins álútflutnings.

Verðmæti vöruinnflutnings jókst hins vegar um tæpan þriðjung milli ára. Mest aukning í innflutningi fyrstu þrjá mánuði ársins var í fjárfestingarvöru, eins og til dæmis byggingavörum, og hrávörum og rekstrarvörum. Íslendingar keyptu hins vegar flutningatæki fyrir um 9 prósentum meira fé á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra.

Það segir þó ekki alla söguna því fluttir voru inn fólksbílar fyrir nærri 60 prósentum hærri upphæð í janúar til mars í ár en á sama tíma í fyrra. Hins vegar má búast við því að lækkun á gengi krónunnar hafi áhrif á söluna á næstunni því með lækkuninni hækkar innkaupsverð á bílum og hafa sum bílaumboð þegar hækkað verð á nýjum bílum og önnur huga að því. Það má því búast við að sala á bílum dragist saman á næstu mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×