Innlent

Mikill verðmunur í byggingavöruverslunum

Mikill verðmunur er í byggingavöruverslunum landsins að því er fram kemur í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði í gær. Mestur var verðmunurinn 70 prósent á ryðfríum skrúfum en minnstur á málningarlímbandi eða 4,4 prósent. Könnunin var gerð í verslunum Byko í Breiddinni og Húsasmiðjunni í Skútuvogi. Skoðaðar voru 22 vörur til heimilisins eins og gasgrill, fjöltengi, garðáhöld, reykskynjari, ljósaperur, málningarvörur, skrúfur og pallaefni.

Mestur var verðmunurinn á ryðfríum skrúfum en 20 stykki af þeim kostuðu 153 krónur í Byko en 260 krónur í Húsasmiðjunni sem er um 70 prósenta verðmunur. Næst mestur var munurinn á strákúst sem kostaði 290 krónur í Byko en 475 krónur í Hússasmiðjunni. Minnstur var verðmunurinn á málningarlímbandi en það kostaði 229 krónur í Húsasmiðjunni en 239 krónur í Byko sem er 4 komma fjögurra prósenta verðmunur. 12 vörutegundir af þeim 22 sem kannaðar voru voru ódýrari í Byko, 9 voru ódýrari í Húsasmiðjunni og ein vörutegund kostaði það sama á báðum stöðum en það var gasgrill af gerðinni Outback Omega sem kostaði 11.900 krónur. Þá var verð athugað á vörukörfu sem innihélt 8 smávörur til viðhalds á heimilinu og kostaði hún 4429 krónur í Húsasmiðjunni en 4851 króna í Byko sem er 9,5 prósenta verðmunur. Verð á pallaefni var kannað sérstaklega og var Byko með lægsta verð í fjórum af þeim fimm tegundum sem kannaðar voru. Þannig var til dæmis Bankira harviðar pallaefni mun dýrara í Húsasmiðjunni en þar kostaði það 216250 en í Byko þar kostaði það 147500 sem er 47 prósenta verðmunur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×