Innlent

Gengur 2000 kílómetra

Jón Eggert Guðmundsson ætlar að ganga rúmlega tvö þúsund kílómetra um strandvegi landsins í sumar og styrkja um leið Krabbameinsfélag Íslands.

Jón Eggert hélt í morgun af stað í kaffi til ömmu sinnar, gangandi alla leið úr Hafnarfirði og upp í Grafarvog. Það er þó ekki aðeins félagsskapur ömmu sinnar sem Jón Eggert sækir í heldur er þetta líka æfing hjá honum. Í sumar hyggst hann ganga alla strandvegi landsins frá Egilsstöðum til Reykjavíkur en fyrri hluta leiðarinnar, frá Reykjavík til Egilsstaða fór hann í fyrra.

Með göngunni slær Jón Eggert tvær flugur í einu höggi, gamall draumur hans um að ganga alla strandvegi landsins rætist og hann safnar fé til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands.

Síðasta sumar gekk Jón Eggert tæpa þúsund kílómetra og veit því að hverju hann gengur. Hann áætlar að ganga taki þrjá og hálfan mánuð og stefnir á að koma til Reykjavíkur á menningarmótt síðla sumars.

Þeir sem vilja styðja Krabbameinsfélag Íslands geta lagt inn á reikning 301-26102005, kennitala 700169-2789. Einnig er hægt að hringja í söfnunarsímann 907 5050 og verða þá þúsund krónur gjaldfærðar á næsta símreikning til stuðnings Krabbameinsfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×