Innlent

Sektað í stæðum fatlaðra

Bráðlega verður farið að sekta ökumenn sem leggja í stæði fyrir fatlaða án þess að eiga þangað erindi ef frumvarp þessa efnis nær fram að ganga. Valdimar Leó Friðriksson, þingmaður Samfylkingar, vill að sektirnar verði tiltölulega háar til þess að ökumenn sem einu sinni brenni sig á þeim geri þau mistök ekki aftur.

Hann segir marga halda að heimild til að sekta óviðkomandi í stæðum fatlaðra sé þegar til staðar í umferðarlögum, svo sjálfsagður þyki réttur fatlaðra til sérmerktra stæða. Hann á von á að frumvarpið verði samþykkt án nokkurra mótmæla enda sé samstaða um réttmæti þess.

Hann segir þetta vera réttlætismál sem hefði átt að vera löngu búið að koma í lag, því að sérmerkt stæði séu mikilvægur þáttur í því að fatlaðir geti verið virkir þátttakendur í samfélaginu.

Ragnar Gunnar Þórhallsson, formaður Sjálfsbjargar, Landssambands fatlaðra, segir samtökin fagna frumvarpinu, þau hafi lengi barist fyrir þessu enda séu sérmerkt bílastæði fyrir fatlaðra síður virt hér á landi en í nágrannalöndunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×